Fréttir

IMG_6829 2
Sumar

Nú er mikið að gera í Set og sumarleyfin byrjuð.  Þá veitir ekki af orkumiklu fæði í mötuneytinu fyrir þau sem eftir eru við störf.
Hún Agne Savukynaite smellti í eplaköku í eftirrétt í síðustu viku öllum til mikillar gleði.  Agne er frá Litháen og hefur starfað hjá Set í þrjú ár.

IMG_2994
Set á starfamessu 2017

Atorka í samstarfi við Sóknaráætlun Suðurlands stóðu fyrir Starfamessu í Fjölbrautaskóla Suðurlands 14. mars sl. En markmið messunnar er að efla tengingu skóla og atvinnulífs á Suðurlandi. Starfamessan er ætluð nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla 1. ár og 2. ár nemendum í framhaldsskólum á Suðurlandi, auk þess sem aðrir nemar framhaldskóla á Suðurlandi voru velkomnir.

Aðsókn að messunni var góð og talið er að um 2000 manns hafi farið um kynningarsvæðið en opið var fyrir almenning að lokinni vígslu á verknámshúsi FSu, Hamri. Alls voru um 30 fyrirtæki sem kynntu yfir 40 náms- og starfsgreinar. Set var með bás á messunni og kynntu fulltrúar Set þær iðngreinar sem má finna innan veggja Set.

IMG_4857 2
Set sýnir á Ecobuild í London

Starfsmenn Set voru meðal þátttakenda á sýningunni Ecobuild í Excel höllinni í London daganna 7. 9. mars. Þetta er í fyrsta skipti sem Set sýnir í Bretlandi en Ecobuild er fagsýning fyrir byggingamarkaðinn þar sem orku og nýtingu hennar til húshitunar eru gerð sérstök skil, einkum nýjum orkugjöfum, einangrun og endurbótum á hitakerfum húsa. Sérstakt svæði var tileinkað fjarvarmatækninni þar sem Set var með sýningarbás sinn.

Á sýningunni kynnti fyrirtækið í fyrsta skipti nýtt og endurbætt Elipex rör, Elipex Premium. Rörið hefur meiri sveigjanleika og enn betra einangrunargildi. Með nýja rörinu sem er foreinangrað PEX plaströr í löngum einingum eins og fyrri kynslóð röranna hyggst Set styrkja stöðu sína í sölu á erlendum mörkuðum, en Set hefur flutt Elipex lagnaefnið út frá árinu 2009.

Þessi vel heppnaða vara er afrakstur fjögurra ára vöruþróunarverkefnis, en tækniþróunarsjóður styrkti verkefnið í upphafi.

tæknihandbok_VH_BR_2016
Ensk útgáfu Tæknihandbókar Set með á sýningu í London

Ensk þýðing Tæknihandbókar Set er nú tilbúin og munu fulltrúar fyrirtækisins taka þá útgáfu bókarinnar með sér á Eco-build sýninguna sem verður haldin í London dagana 7.-9. mars. Um er að ræða byggingariðnaðarsýningu þar sem mörg af stærstu fyrirtækjum heims í þessum geira verða á meðal þátttakenda og munu fulltrúar Set kynna fyrirtækið og vörur þess á fjarmvarmasvæði sýningarinnar.

Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri Set, og Louise Harrison, sölustjóri á útflutningssviði, fara fyrir hönd Set, en þetta er í fyrsta skipti sem fulltrúar fyrirtækisins kynna vörur þess og þjónustu í Englandi. „Við erum fyrst og fremst að skanna markaðinn í Englandi. Aðilar þar eru tiltölulega nýir á þessum markaði miðað við meginlandið og það er okkur tilfinning að okkar efni, sérstaklega Elipex og Elipex premium, eigi erindi í Bretlandi,“ segir Bergsteinn um þessa ferð.

Að þessu tilefni var ráðist í það verk að þýða Tæknihandbók Set, sem var gefin út í fyrra á íslensku og þýsku, yfir á ensku fyrir þennan nýja mögulega markað. Vefútgáfu ensku bókarinnar má skoða með því að smella hér.

arion_banki_framurskarandi
Gjöf frá Arion banka Selfossi

Í janúar sl. fékk Set viðurkenningu frá Creditinfo fyrir að vera framúrskarandi fyrirtæki ársins 2016.

Að því tilefni komu fulltrúar frá útibúi Arion banka á Selfossi, þau Hafsteinn Jóhann Hannesson og Unnur Edda Jónsdóttir, í höfuðstöðvar Set og gáfu fyrirtækinu að gjöf slönguspil sem hefur tilvísun í rekstur fyrirtækis og sýnir að leiðin er ekki alltaf auðveld á toppinn.

Á meðfylgjandi mynd eru þau saman komin ásamt Bergteini Einarssyni framkvæmdarstjóra Set og Reyni Guðmundssyni fjármálastjóra Set

Kiwanis_001
Kiwanisklúbbar í heimsókn

Góður hópur, sem taldi um 30 manns, kom í heimsókn í höfuðstöðvar Set á Selfossi fyrr í þessari viku. Þetta voru meðlimir frá Kiwanisklúbbnum Búrfelli á Selfossi og Kiwanisklúbbnum Ölveri frá Þorlákshöfn sem litu við og fengu kynningu á starfseminni sem á sér stað innan veggja Set á Eyraveginum á Selfossi.

Bergsteinn Einarsson, forstjóri Set, Louise Harrison, sölustjóri á útflutningssviði, og Valgerður Pálsdóttir, skrifstofustjóri Set, tóku á móti hópnum og leiddi hann í gegnum mismunandi framleiðslustöðvar.

Að þessu tilefni samdi Hjörtur Þórarinsson eftirfarandi vísu:

Við gengum hérna fet fyrir fet,
Fræðslu hjá Bergsteini metið ég get
Við undruðumst allir að sjá hvernig Set,
Setur hvert árið framleiðslumet

Hjörtur Þórarinsson 15.2.2017

Meðfylgjandi myndir voru tekar í heimsókninni.

IMG_0234
Gera við plastbát frá Ístaki

Sérsmíðadeild Set vinnur nú að viðgerð á ansi sérstökum plastbáti frá Ístaki, en þeir Guðjón Ingi Viðarsson og Gary John Te Maiharoa hafa yfirumsjón með verkefninu. Samskonar bátur var eitt sinn framleiddur af sérsmíðadeild Set og því þóttu þeir Guðjón og Gary réttu mennirnir til þess að gera við þennan bát.

Sérsmíðadeildar Set tekur að sér fjölbreytt verkefni. Í sumar tóku sömu aðilar að sér hönnum og framleiðslu skotþrautar og fótboltagolfvallar fyrir unga þátttakendur á Set-mótinu í fótbolta. Hvort tveggja er enn í boði sem afþreying á íþróttavellinum á Selfossi.

Á myndinni hér að ofan má sjá Guðjón og Gary að störfum með bátinn góða.

bio_bu_set_ror
Ostaformin hönnuð úr Set vatnsrörum

Mjólkurvöruframleiðandinn Bio-bú, sem framleiðir mjólkurvörur úr lífrænni mjólk, notar vatnsrör frá Set til þess að framleiða form fyrir ostaframleiðsluna. Selfyssingarnir og bræðurnir Helgi Rafn og Sverrir Örn Gunnarssynir eru háttsettir innan fyrirtækisins, en Sverrir vann fjögur sumur hjá Set þegar hann var yngri. Hann segir að hringlaga ostar hafi lengi verið í uppáhaldi hjá honum, en þegar hann hóf sjálfur að framleiða osta fann hann hvergi form sem hentuðu.

Þá voru góð ráð dýr og því ákvað hann spyrja sérfræðing í framleiðslu osta hvort þeir gætu hannað og framleitt þessi ostaform sjálfir. Sérfræðingurinn sagði það vera lítið mál og eftir að reynslu sína hjá Set vissi hann að þar væri að finna mögulega lausn. „Svo ég keypt vatnsrör frá Set og þau virkuðu svona líka vel,“ segir Sverrir Örn sem útbjó svo rörin þannig að þau hentuðu ostaframleiðslunni. Auk þess hafi rörin frá Set verið margfalt ódýrari en að kaupa tilbúin ostaform.

Osturinn kallast Búlands havarti og er fyrirmynd hans frá Danmörku þar sem hann kallast Fløde Havarti. Búlands havarti er 36% feitur ostur sem er hringlaga og sjálf-pressaður. Samskonar ostur hefur ekki verið fáanlegur á Íslandi og því fannst Sverri tilvalið að ráðast framleiðslu á honum þar sem danski osturinn var í miklu uppáhaldi hjá honum þegar hann bjó þar í landi.

Set röraverksmiðja fagnar því að fólk finni óhefðbundnar leiðir til þess að nýta vörur fyrirtækisins til góða, ekki síst þegar þær eru notaðar í vöruþróun eins og þá sem Bio-bú vinnur að.

Á myndinni hér fyrir ofan eru þeir bræður, Helgi og Sverrir, í framleiðslurými Bio-bú með Set vatnsröra-ostaforminn.

namskeid_170105
Námskeið fyrir starfsmenn ÍAV og HS veitna

Í liðinni viku sat tíu manna hópur námskeið í samsetningu hitaveituefnis í höfuðstöðvum Set á Selfossi. Þetta voru starfsmenn frá Íslenskum Aðalverktökum, HS veitum auk þess eins starfsmanns Set. Elías Örn Einarsson, þjónustu- og öryggisstjóri Set, sem sá um bókalega og verklega kennslu auk þess að sýna hópnum framleiðslustöðvar í verksmiðju Set á Selfossi. Þá flutti Valdimar Hjaltason, verkefnastjóri í tækni- og gæðamálum, sérstakan fyrirlestur fyrir hópinn.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þann dag sem námskeiðið var haldið.

framursk_islands
Starfsfólk Set fékk kökur frá Íslandsbanka

Eins og sagt var frá hér á síðunni í gær fékk Set viðurkenningu frá Creditinfo fyrir að vera framúrskarandi fyrirtæki árið 2016, en þetta er fjórða árið í röð sem fyrirtækið fær þessa viðurkenningu.

Að því tilefni komu fulltrúar frá útibúi Íslandsbanka á Selfossi, viðskiptabanka Set, færandi hendi í höfuðstöðvar Set á Selfossi í gær með tvær glæsilegar kökur. Kökurnar voru veittar starfsfólki Set í matar- og kaffitíma, en starfsfólkið eru helsta ástæða þess að fyrirtækið fær þessa viðurkenningu ár eftir ár.

Á meðfylgjandi mynd eru yfirmenn Set ásamt fulltrúum frá Íslandsbanka á Selfossi. Þakkar starfsfólk Set kærlega fyrir gjöfina.

Fréttir og tilkynningar
Verkefni
Set ehf.
  • Eyravegur 41, 800 Selfoss
  • 480 2700
  • 482 2099
  • set@set.is