Fréttir

Set knattspyrnumótið á Selfossi 11. til 12. júní 2022 – Myndband

Vel heppnað Set-mót er að baki, stærra en nokkru sinni fyrr. Mótið sem er fyrir yngra árið í 6. flokki drengja var fyrst haldið árið 2014. Fjöldi þátttakenda hefur vaxið jafnt og þétt með hverju ári, voru nú yfir 800 í 120 liðum og 60 dómarar dæmdu 700 leiki. Vel á fjórða þúsund manns dvöldu á Selfossi þann tíma sem mótið stóð yfir.

Knattspyrnudeild Ungmennafélags Selfoss og Set ehf. vilja þakka þátttakendum, foreldrum, stuðningsfólki og þeim sem komu að framkvæmdinni fyrir ánægjulega samveru. Áfram Selfoss!

Vel heppnað Samorkuþing á Akureyri

Set kynnti sínar vörur og þjónustu á þingi Samorku sem haldið var í menningarhúsinu Hofi á Akureyri dagana 9. og 10. maí 2022.  Samorkuþingið er stærsta ráðstefna í orku- og veitugeiranum á Íslandi. Þingið er haldið á þriggja ára fresti og fer nú loksins fram eftir að hafa verið frestað í tvígang vegna heimsfaraldurs Covid-19. Á þinginu var boðið upp á 130 fyrirlestra um fjölbreytt viðfangsefni orku- og veitufyrirtækja, auk þess sem boðið var upp á vöru- og þjónustusýningu framleiðenda, þjónustu og sölufyrirtækja á orku- og veitusviðinu. Fimmhundruð gestir sóttu þingið sem er metfjöldi hingað til enda eftirvænting mikil fyrir þessum viðburði. Að venju kynnti Set vörur sínar og þjónustu auk þess sem fulltrúar fyrirtækisins fluttu fyrirlestra um áhugaverð efni. Set vill þakka fulltrúum Samorku fyrir gott skipulag og samvinnu, sem og miklum fjölda viðskiptavina félagsins og samstarfsaðila sem litu við í bás Set á ráðstefnunni fyrir komuna.

Samstarf í sorpmálum

Set hefur síðastliðin tvö ár átt í samstarfi við fyrirtækið Pure North Recycling um endurvinnslu á hluta af því plasti sem fellur til í framleiðslu fyrirtækisins. Í dag er Pure North Recycling eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Í endurvinnslunni er óhreinum plastúrgangi breytt í plastpallettur sem seldar eru til framleiðslu á nýjum plastvörum hér á landi og erlendis. Nú á dögunum gerðu fyrirtækin með sér nýjan samstarfssamning um að Pure North Recycling hafi yfirumsjón með öllum sorpmálum fyrir Set ehf með það að leiðarljósi að koma öllu sem fellur til hjá fyrirtækinu í endurvinnslufarveg. Þetta er hluti af þeim fjölmörgu skrefum sem Set ehf hefur verið að taka undanfarin ár í átt að umhverfisvænni rekstri og lægra kolefnisspori á framleiðsluvörum fyrirtækissins.

Mynd: F.v. Brynjar Bergsteinsson Framleiðslustjóri Set og Sigurður Halldórssson Framkvæmdastjóri Pure North við undirritun samstarfssamningsins.

Framúrskarandi fyrirtæki 2021

Set hefur eins og frá upphafi viðurkenningar Creditinfo fyrir framúrskarandi fyrirtæki, hlotið viðurkenninguna í ár.
Til grundvallar liggja tölur úr rekstri fyrirtækisins árið 2020 en það ár verður að teljast það besta hingað til hvað veltu og afkomu varðar. Mitt í því ástandi sem Covid vandinn olli, erfiðleikum við öflun aðfanga, verðhækkunum, truflunum á flutningum og takmörkunum á umgengni fólks milli deilda innan fyrirtækisins, við fólk í öðrum fyrirtækjum og á milli landa. Að halda þessari stöðu og gera enn betur er sannarlega afrek sem starfsfólk og stjórnendur Set geta verið stolt af. Set mun áfram verða gildandi á fjölmörgum sviðum í umhverfis og orkumálum, í byggingariðnaði, matvælaframleiðslu og endurvinnslu.

Nánari upplýsingar um hvað gerir fyrirtæki framúrskarandi má finna á síðu Creditinfo.

Set hefur fest kaup á fyrirtækinu Dælur og þjónusta

Set hefur fest kaup á fyrirtækinu Dælur og þjónusta sem nú síðast var í eigu Ísfells. Dælur og þjónusta er gamalgróið fyrirtæki sem þjónað hefur innlendum markaði í fjölmörgum atvinnugreinum. Hjalti Þorsteinsson starfaði lengi hjá Dælum og þjónustu en hefur nú verið ráðinn sölu og rekstrarstjóri í vöruhúsi Set í Reykjavík. Set mun bjóða upp á búnað og lausnir frá viðurkenndum aðilum á sviði dælutækninnar samhliða ýmsum öðrum hliðarvörum með framleiðslu fyrirtækisins og sérsmíði. Tæknideild Set hefur í vaxandi mæli komið að hönnun og þróun á ýmsum lausnum fyrir veitustofnanir og fyrirtæki um leið og plastsmíða og véltæknideildir fyrirtækisins hafa byggt upp véltækni og mikla reynslu í smíði á flóknum búnaði.

Set styður Krabbameinsfélag Árnessýslu

Set hefur gert samstarfssamning til þriggja ára við Krabbameinsfélag Árnessýslu.

Fyrirtækið mun styðja við starfsemina með þriggja ára samningi um mánaðarlegt framlag. Við undirritun samningsins í síðustu viku sagði Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu; „Við erum gríðarlega þakklát fyrir þennan styrk og samstarfið er afar þýðingarmikið fyrir félagið. Þetta tryggir félaginu tækifæri til að eflast og stækka. Bæði hvað varðar að halda úti góðri aðstöðu og eins við að efla þjónustuframboð fyrir þá sem sækja til félagsins. Ykkar styrkur gefur okkur færi á að styðja áfram með myndarlegum hætti við þá sem þurfa á þjónustu okkar að halda.“

Bergsteinn Einarsson, forstjóri Set sagði að styrkur með þessum hætti væri nýlunda hjá fyrirtækinu í stuðningi við velferðarfélög. Það er orðið að veruleika og við erum afskaplega stolt af samstarfinu og vonum að það verði félaginu til góðs.“

Mynd: Svanhildur Ólafsdóttir formaður félagsins og Elías Örn Einarsson þjónustu og öryggisstjóri Set undirrituðu samninginn.

Hið árlega Set mót í fótbolta er ört vaxandi viðburður

Set mótið var haldið á Selfossi helgina 13-14. júní sl. en það hefur fest sig í sessi sem árlegur viðburður í bæjarfélaginu frá því það hófst 2014. Mótið sækja tveir árgangar 6. flokks drengja. Skráðir þátttakendur voru 760 frá 31 knattspyrnufélagi en alls léku 127 lið í 12 riðlum á 18 keppinsvöllum. Stöðugur vöxtur hefur verið í fjölda þáttakenda en aðstaðan á Selfossi og skipulag mótsins þykir til mikillar fyrirmyndar. Mjög margir aðilar leggja fram vinnu sína og sem dæmi um umfangið voru rúmlega fimmtíu dómarar við störf sem dæmdu tæplega 700 leiki. Í heildina komu allt að hundrað manns að framkvæmdinni.
Mikill fjöldi fólks sækir viðburðinn, leikmenn foreldrar og aðstandendur og það hefur auðvitað jákvæð áhrif á umsvif í bæjarfélaginu. Sem fyrr voru veitt þrenn verðlaun fyrir úrslit í hverjum riðli en nánari upplýsingar um úrslit er að finna á Facebook síðu mótsins. Þátttakendur fengu einnig gjafir sem í ár voru íþróttapoki og fótbolti. Set ehf. þakkar Knattspyrnudeildinni fyrir gott samstarf og við viljum einnig þakka þátttakendum, foreldrum, stuðningsfólki og öðrum gestum sem komu á mótið.

Stofnun sölufyrirtækis í Danmörku

Set hefur stofnað nýtt sölufyrirtæki í Danmörku Set Pipes AS sem ætlað er að þjóna markaðstarfi félagsins á norðurlöndunum. Kim Stubbergaard Reese mun veita félaginu forstöðu en söluskrifstofan er í Frederikshavn á norður Jótlandi.

Í tilkynningu um stofnun Set Pipes AS á LinkedIn kemur fram að Set hafi mikla vörubreidd, langa reynslu og tæknilega getu til að takast á við verkefni á lagnasviði í verksmiðjum fyrirtækisins á Íslandi, á Selfossi en ekki síður á meginlandinu með vinnslu á einangruðum stálrörum hjá Set Pipes GmbH í Haltern am See í Þýskalandi.
Set bjóði lausnir í lagnaefni fyrir fjarvarma, vatns og fráveitur, ljósleiðara og kerfi fyrir iðnað og kæliveitur. Síðast og ekki síst mun Set geta boðið nýja gerð af einangruðum plaströrum frá nýrri framleiðslulínu í Þýskalandi sem unnið hefur verið að þróun á undanfarin ár og þykir taka flestu fram af sambærilegu efni á markaðnum hvað sveigjanleika, beygju og álagsþol varðar og hefur einstakt einangrunargildi gegn hitatapi í fjarvarmakerfum. Stjórnendur og starfsfólk Set binda miklar vonir við þessa nálgun við norðurlöndin og eru stolt af stofnun Set Pipes AS.

Neyðarkall björgunarsveitanna er mættur í hús

Heiða Jóhannsdóttir tók á móti Neyðarkalli björgunarsveitanna fyrir hönd Set af þeim Sveini Ægi Birgissyni og Jóhanni Valgeiri Helgasyni. Set hefur stutt starf björgunarsveitanna um árabil. 
Hjá Set starfa einnig meðlimir sveitanna og kunnátta þeirra hefur nýst Set við úrlausn flókinna og krefjandi verkefna á fjarlægum stöðum, m.a. á Grænlandi í sumar þar sem unnið var við mjög krefjandi aðstæður. Set ehf. þakkar björgunarfélagi Árborgar gott samstarf á liðnum árum.

Framúrskarandi fyrirtæki 2019

Sjöunda árið í röð hlotnast Set ehf. viðurkenning Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki. Það er sannarlega ánægjulegt fyrir stjórnendur og starfsfólk fyrirtækisins að viðhalda þeirri stöðu. Tertan sem Íslandsbanki færði starfsfólki Set í tilefni dagsins er einnig viss viðurkenning fyrir góðan árangur.

Meginmarkmið greiningarinnar er að verðlauna þau fyrirtæki sem standa sig vel og stuðla að bættu viðskiptaumhverfi. Það er því eftirsóknarvert að komast á lista Framúrskarandi fyrirtækja og njóta þannig aukins trausts.

Nánari upplýsingar um hvað gerir fyrirtæki framúrskarandi má finna á síðu Creditinfo.

EnglishGermanDanish