Fréttir, Heimsóknir

Heimsókn MTV Lübeck

Dagana 21. til 28. október sl. kom hópur leikmanna frá MTV Lübeck í heimsókn til landsins, drengir fæddir 2009 og 2010 sem leika í efstu deild yngri flokka í Þýskalandi og þykja efnilegir. Þeim fylgdu foreldrar og stjórnendur svo hópurinn taldi alls 28 manns.
Handknattleiksdeild UMFS hafði veg og vanda að skipulagningu og móttöku hópsins en aðdraganda heimsóknarinnar og má rekja til eins af forystumönnum félagsins Marcus Sievers sem um árabil hefur átt í viðskiptasambandi með stálpípur við Set ehf. á Selfossi og Set Pipes GmbH í Haltern am See í Þýskandi.
Heimsóknin tókst afar vel og fyrirhugað er frekara samstarf liðanna með veg íþróttarinnar að leiðarljósi. Fjölbreytt dagskrá var alla vikuna, skoðunarferðir, æfingar og heimsóknir á leiki Selfossliðsins. Hópurinn skoðaði starfsemi Set þar sem Einar Sverrisson og Jakob Guðnason tóku á móti hópnum og sögðu frá framleiðslu, starfsemi fyrirtækisins og einnig sótti herminjasafn Einars Elíassonar, stofnanda Set ehf og áhugamanns um flug og sögu þess á Selfossi. Það er ánægjulegt fyrir Set að eiga aðild að því að þetta áhugaverða samstarf hófst.

Lübeck er borg í sambandsríkinu Slésvík-Holtsetalandi í norður Þýskalandi. Fimleikafélagið MTV sem stofnað var 1865 er stærsta íþróttafélagið í St.-Jürgen-hverfinu í Lübeck og býður það upp á 30 mismunandi íþróttagreinar meðal annars handknattleiksdeild.