Fréttir

Ótrúlegt þol hitaveitulögn frá Set í heitu hrauninu í Grindavík

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn þjónustudeildar Set unnið að einangrun samskeyta á nýrri hitaveitulögn sem liggur frá Svartsengi til Grindavíkur. Verkið var í fullum gangi þegar jarðhræringar náðu hámarki í nóvember og stöðvaðist verkið þegar Grindavík var rýmd þann 10. nóvember 2023. Strax eftir áramótin var ákveðið að verkið skildi klárað og var fjölmennur hópur sendur á staðinn til þess flýta fyrir framkvæmdum á verkinu.

Náttúruöflin höfðu því miður önnur plön og hófst eldgos við Hagafell, rétt norðan við Grindavík þann 14. janúar, áður en tókst að hylja lögnina og var hún því óvarin gegn hraunrennslinu þegar hrauntungan náði Grindavíkurvegi.

Sérfræðingar HS Veitna og HS Orku ákváðu strax daginn eftir að koma rennsli á lögnina til þess að athuga hvort að stállögnin væri heil og gekk það vonum framar og streymir nú vatn í gegnum lögnina í samræmi við eftirspurn.

Ótrúlegt er að sjá lögnina hverfa inn í nýrunnið hraunið og eins og myndirnar hér með fréttinni bera með sér að þá hefur plastkápan sloppið ótrúlega vel við hitann.