SAGA FYRIRTÆKISINS

Þetta hófst árið 1968

Árið 1968 hóf Steypuiðjan, er síðar varð Set, framleiðslu á steinsteyptum fráveiturörum, og áratug síðar, einangruðum stálpípum fyrir hitaveitur.

Í framhaldi af þessu hafa bæst við ýmsar fleiri gerðir plaströra og rörakerfa, en öll framleiðsla fer fram í verksmiðjum Set á Selfossi og í Þýskalandi.

Fjögurra áratuga starfsemi fyrirtækisins hefur öðru fremur einkennst af mjög virku samkeppnisumhverfi. Þær aðstæður hafa kallað á árvekni og skjót viðbrögð þar sem áhersla hefur verið lögð á hátt tæknistig, framleiðni og gæðavitund. Mikil þekking og reynsla hefur skapast á sviði framleiðslutækni hjá fyrirtækinu. Á það einnig við um kunnáttu á sviði markaðsmála og þjónustu við lagnaiðnaðinn.

Viðskiptavinir SET eru aðallega veitustofnanir, sveitarfélög, og endursölu- og þjónustuaðilar á byggingasviði. Meðal helstu viðskiptavina fyrirtækisins eru því stærstu orku- og fjarskiptafyrirtækin, byggingavöruverslanir og verktakar. Allir þessir aðilar hafa tileinkað sér innkaupareglur um opin útboð og verðsamanburð í samræmi við milliríkjasamninga, og SET því orðið að mæta alþjóðlegum samanburði í verði, vöru- og þjónustugæðum.

Fræðslumál hafa verið efld til muna hjá Set á undanförnum árum, en SET rekur eigið fræðslukerfi fyrir starfsfólk; Set-Plastiðnaðarskólann, og annast auk þess námskeiðahald á sviði lagnatækni fyrir viðskiptavini sína. Íslenski lagnamarkaðurinn hefur á undanförnum árum einnig lagt aukna áherslu á gæðamál og fræðslu. Markmiðið hefur verið að auka endingartíma og draga úr viðhaldsþörf lagnakerfa sem sífellt verða stærri og margbrotnari.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri og bæta upplifun notenda.