Nafn

Netfang

Erindi

Skilaboð

Fréttir

Setmótið aldrei verið stærra

Set mótið í knattspyrnu var haldið síðastliðna helgi. Mótið er haldið fyrir 6. flokk drengja og var mótið í ár með með þeim stærstu sem haldið hefur verið á Selfossi. En alls voru tæplega 600 keppendur skráðir til leiks og voru allt að 3000 manns saman komin á vellinum báða dagana. Veðrið lék við mótsgesti alla helgina og má með sanni segja að allir hafi kvatt Selfoss með góðar minningar í farteskinu.

Set á starfamessu 2017

Atorka í samstarfi við Sóknaráætlun Suðurlands stóðu fyrir Starfamessu í Fjölbrautaskóla Suðurlands 14. mars sl. En markmið messunnar er að efla tengingu skóla og atvinnulífs á Suðurlandi. Starfamessan er ætluð nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla 1. ár og 2. ár nemendum í framhaldsskólum á Suðurlandi, auk þess sem aðrir nemar framhaldskóla á Suðurlandi voru velkomnir.

Aðsókn að messunni var góð og talið er að um 2000 manns hafi farið um kynningarsvæðið en opið var fyrir almenning að lokinni vígslu á verknámshúsi FSu, Hamri. Alls voru um 30 fyrirtæki sem kynntu yfir 40 náms- og starfsgreinar. Set var með bás á messunni og kynntu fulltrúar Set þær iðngreinar sem má finna innan veggja Set.

Set sýnir á Ecobuild í London

Starfsmenn Set voru meðal þátttakenda á sýningunni Ecobuild í Excel höllinni í London daganna 7. 9. mars. Þetta er í fyrsta skipti sem Set sýnir í Bretlandi en Ecobuild er fagsýning fyrir byggingamarkaðinn þar sem orku og nýtingu hennar til húshitunar eru gerð sérstök skil, einkum nýjum orkugjöfum, einangrun og endurbótum á hitakerfum húsa. Sérstakt svæði var tileinkað fjarvarmatækninni þar sem Set var með sýningarbás sinn.

Á sýningunni kynnti fyrirtækið í fyrsta skipti nýtt og endurbætt Elipex rör, Elipex Premium. Rörið hefur meiri sveigjanleika og enn betra einangrunargildi. Með nýja rörinu sem er foreinangrað PEX plaströr í löngum einingum eins og fyrri kynslóð röranna hyggst Set styrkja stöðu sína í sölu á erlendum mörkuðum, en Set hefur flutt Elipex lagnaefnið út frá árinu 2009.

Þessi vel heppnaða vara er afrakstur fjögurra ára vöruþróunarverkefnis, en tækniþróunarsjóður styrkti verkefnið í upphafi.

Ensk útgáfu Tæknihandbókar Set með á sýningu í London

Ensk þýðing Tæknihandbókar Set er nú tilbúin og munu fulltrúar fyrirtækisins taka þá útgáfu bókarinnar með sér á Eco-build sýninguna sem verður haldin í London dagana 7.-9. mars. Um er að ræða byggingariðnaðarsýningu þar sem mörg af stærstu fyrirtækjum heims í þessum geira verða á meðal þátttakenda og munu fulltrúar Set kynna fyrirtækið og vörur þess á fjarmvarmasvæði sýningarinnar.

Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri Set, og Louise Harrison, sölustjóri á útflutningssviði, fara fyrir hönd Set, en þetta er í fyrsta skipti sem fulltrúar fyrirtækisins kynna vörur þess og þjónustu í Englandi. „Við erum fyrst og fremst að skanna markaðinn í Englandi. Aðilar þar eru tiltölulega nýir á þessum markaði miðað við meginlandið og það er okkur tilfinning að okkar efni, sérstaklega Elipex og Elipex premium, eigi erindi í Bretlandi,“ segir Bergsteinn um þessa ferð.

Að þessu tilefni var ráðist í það verk að þýða Tæknihandbók Set, sem var gefin út í fyrra á íslensku og þýsku, yfir á ensku fyrir þennan nýja mögulega markað. Vefútgáfu ensku bókarinnar má skoða með því að smella hér.

Ostaformin hönnuð úr Set vatnsrörum

Mjólkurvöruframleiðandinn Bio-bú, sem framleiðir mjólkurvörur úr lífrænni mjólk, notar vatnsrör frá Set til þess að framleiða form fyrir ostaframleiðsluna. Selfyssingarnir og bræðurnir Helgi Rafn og Sverrir Örn Gunnarssynir eru háttsettir innan fyrirtækisins, en Sverrir vann fjögur sumur hjá Set þegar hann var yngri. Hann segir að hringlaga ostar hafi lengi verið í uppáhaldi hjá honum, en þegar hann hóf sjálfur að framleiða osta fann hann hvergi form sem hentuðu.

Þá voru góð ráð dýr og því ákvað hann spyrja sérfræðing í framleiðslu osta hvort þeir gætu hannað og framleitt þessi ostaform sjálfir. Sérfræðingurinn sagði það vera lítið mál og eftir að reynslu sína hjá Set vissi hann að þar væri að finna mögulega lausn. „Svo ég keypt vatnsrör frá Set og þau virkuðu svona líka vel,“ segir Sverrir Örn sem útbjó svo rörin þannig að þau hentuðu ostaframleiðslunni. Auk þess hafi rörin frá Set verið margfalt ódýrari en að kaupa tilbúin ostaform.

Osturinn kallast Búlands havarti og er fyrirmynd hans frá Danmörku þar sem hann kallast Fløde Havarti. Búlands havarti er 36% feitur ostur sem er hringlaga og sjálf-pressaður. Samskonar ostur hefur ekki verið fáanlegur á Íslandi og því fannst Sverri tilvalið að ráðast framleiðslu á honum þar sem danski osturinn var í miklu uppáhaldi hjá honum þegar hann bjó þar í landi.

Set röraverksmiðja fagnar því að fólk finni óhefðbundnar leiðir til þess að nýta vörur fyrirtækisins til góða, ekki síst þegar þær eru notaðar í vöruþróun eins og þá sem Bio-bú vinnur að.

Á myndinni hér fyrir ofan eru þeir bræður, Helgi og Sverrir, í framleiðslurými Bio-bú með Set vatnsröra-ostaforminn.

Set framúrskarandi fyrirtæki 2016

Set hefur öðlast viðurkenningu matsfyrirtækisins Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki fjórða árið í röð.  Af tæplega 35.000 skráðum fyrirtækjum á Íslandi uppfylla 624 skilyrði Creditinfo um styrk og stöðugleika. Til þess að eiga kost á viðurkenningunni þurfa fyrirtækin að uppfylla strangt gæðamat byggt á faglegum kröfum og greiningu Creditinfo. Set er nú í 233. sæti.

Þessi viðurkenning að vera meðal 1,7% bestu hlutafélaga landsins er ánægjuleg staðfesting á góðum rekstri félagsins og góðu starfi innan þess á öllum stigum. Set er í greiningu Creditinfo sett í flokk með stórum fyrirtækjum en fyrirtækjunum er skipt í þrjá flokka lítil, meðalstór og stór fyrirtæki.

Skilyrðin eru:

  • Hefur skilað ársreikningi til RSK síðastliðin þrjú ár
  • Er í lánshæfisflokki 1-3
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) hefur verið jákvæður þrjú ár í röð
  • Ársniðurstaða hefur verið jákvæð þrjú ár í röð
  • Eiginfjárhlutfall 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð
  • Eignir hafa numið 80 milljónum eða meira þrjú ár í röð
  • Framkvæmdastjóri er skráður í hlutafélagaskrá
  • Fyrirtækið er virkt skv. skilgreiningu Creditinfo

Set ehf. er á meðal 1,7% íslenskra fyrirtækja sem standast þessar kröfur.

Starfsfólk Samverks í heimsókn

Um helgina kom stór hópur starfsfólks Samverks á Hellu í heimsókn í röraverksmiðju Set á Selfossi. Bergsteinn Einarsson, forstjóri Set, tók á móti hópnum og fylgdi honum í gegnum framkvæmdasvæði fyrirtækisins ásamt því að kynna starfsemi fyrirtækisins. Að lokum var hópnum boðnar veitingar í matsal Set þar sem Bergsteinn hélt kynningunni áfram.

Eftir heimsóknina í Set fór hópurinn á flugminjasafn Einars Elíassonar þar sem húsbóndinn sýndi fólkinu þá muni sem þar er að finna.

Heimsóknin var hluti af skemmtiferð hópsins um Suðurland og lét fólkið ekki snjókomu og rok hafa áhrif á þá ferð.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á laugardaginn.

Set styður við knattspyrnu á Selfossi

Styrktarsamningur var undirritaður í dag á milli Set og Knattspyrnudeildar Umf. Selfoss. Set hefur verið einn aðal styrktaraðili Knattspyrnudeildarinnar síðustu áratugi og verður það áfram næstu tvö árin eftir undirritun þessa samnings.

Set hefur verið með auglýsingar á stuttbuxum meistaraflokka Selfoss undanfarin ár, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Þá hefur knattspyrnudeildin síðustu ár haldið Set-mót fyrir 6. flokk og verður engin breyting á því næstu tvö ár. Þvert á móti er stefnt að því að hafa mótið enn stærra en síðustu ár og hafa þegar fjölmörg lið haft samband um þátttöku á því móti.

Að lokum óskuðu forsvarsmenn Set eftir því að ákvæði yrði sett inn í styrktarsamninginn um að 10% styrktarupphæðarinnar sem Set leggur til fari beint og óskipt í sjóðinn Knattspyrna fyrir alla. Sjóðurinn er hugsaður til þess að styrkja unga knattspyrnuiðkendur sem eiga ekki kost á því að greiða æfingagjöld eða kaupa sér nauðsynlegan fatnað til knattspyrnuiðkunar. Með þessu vill Set gera sitt til þess að ungir iðkendur geti stundað íþróttina burtséð frá fjárhagsstöðu heimilisins.

Samkvæmt forsvarsmönnum Knattspyrnudeildar Selfoss er samningur sem þessi mikilvægur félaginu og samstarf við fyrirtækin á svæðinu ómetanlegt. Þannig er hægt að halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið hjá félaginu undanfarin ár. Einnig er Set-mótið mikilvægur hluti af þessu starfi og nú er ljóst að mótið árið 2017 verður það langstærsta til þessa, svo mikill er áhugi félaga á þátttöku.

Á myndinni fyrir ofan eru Elías Örn Einarsson, þjónustu- og öryggisstjóri Set, Adolf Ingvi Bragason, formaður Knattspyrnudeildar Selfoss, Gunnar Borgþórsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Knattspyrnudeild Selfoss, og Ingi Rafn Ingibergsson og Guðjón Orri Sigurjónsson, leikmenn liðsins, við undirritun samningsins.

Á neðri myndinni standa þeir Bergsteinn Einarsson, forstjóri Set, og Örn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu- og tæknisviðs Set með fyrrnefndum aðilum.

Forstjórinn eldar fyrir starfsfólk

Bergsteinn Einarsson, forstjóri Set, starfar sem matráður fyrirtækisins þessa vikuna og sér um að útbúa morgun- og hádegisverð fyrir starfsfólk til að hlaupa í skarðið fyrir starfsfólk sem er í leyfi. Bergsteinn hikar ekki við að taka að sér verkefni sem þarf að leysa í fyrirtækinu og í þetta skiptið nýtur hann aðstoðar Ágústs Þórs Guðnasonar, starfsmanns mötuneytisins.

Að sögn Bergsteins er hann ánægður með tilbreytinguna. „Það er gaman að prófa þetta enda hef ég gaman að því að elda og vinna í eldhúsinu. Það er ekki þar með sagt að þetta sé eitthvað frí fyrir mig – þvert á móti. Það er í mörg horn að líta hérna og maður þarf að hafa sig allan við til að undirbúa morgun- og hádegismat fyrir 70 manns,“ segir Bergsteinn um þessa reynslu sína, en fyrsta starf hans var einmitt í eldhúsinu á hóteli á Laugarvatni þegar hann var níu ára gamall.

Bergsteinn mun stjórna mötuneyti Set út þessa viku eða þar til starfsfólk Set fer í jólaleyfi á föstudaginn. Samkvæmt honum hefur matseðill vikunnar að mestu verið skipulagður ef frá er talinn fimmtudagurinn, sem er síðasti starfsdagur í Set þetta árið. Þá er spurning hvort forstjórinn muni bjóða upp á fiskrétt sem er gjarnan í boði á íslenskum heimilum á Þorláksmessu.

Á meðfylgjandi myndum má sjá þá félaga, Bergstein og Ágúst, að störfum í eldhúsinu í mötuneyti Set fyrr í dag.

Ánægja með kynningardag Georg Fischer á Selfossi

Kynningardagur helgaður vörum og þjónustu vatnsveituhluta svissneska lagnafyrirtækisins Georg Fischer var haldinn í höfuðstöðvum Set á Selfossi fimmtudaginn 16. desember. Fulltrúar frá söluskrifstofu Georg Fischer í Danmörku mættu til landsins til að sjá um kynninguna, þeir Kim Blicker, yfirmaður dönsku söluskrifstofunnar, og Lennart Mårtensson, sérfræðingur á vatnsveitusviði.

Alls voru 25 þátttakendur á kynningardeginum, aðallega yfirmenn og starfsmenn vatnsveita víðsvegar af landinu og verktakar á sviði vatnsveitu. Hópurinn fékk ítarlega og umfangsmikla kynningu á vörum Georg Fischer og á nýrri tækni fyrirtækisins í spegil- og rafsuðu.

Að lokum fékk hópurinn ítarlega kynningu á alhliða lausnum Set í vatnsveituefnum. Þeir Örn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu- og tæknisviðs Set, Grétar Halldórsson, sölu- og tækniráðgjafi, Valdimar Hjaltason, verkefnastjóri í tækni- og gæðamálum, og Benedikt Rafnsson, aðstoðar verkefnastjóri, sáu um kynninguna fyrir hönd Set röraverksmiðju.  Mikil ánægja var á meðal þátttakenda og sýndu þeir kynningunni, vörunum og þjónustunni mikinn áhuga.

Samstarf Set röraverksmiðju og Georg Fischer nær aftur til ársins 1998, en fyrirtækið er eitt stærsta í heimi á sviði lagna og röra.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á kynningardeginum, á fyrirlestri sem Kim Blicker hélt fyrir hópinn, á sýnilegri kynningu Lennart Mårtensson og kynningunni á heildar lausnum Set.

EnglishGerman