Fréttir

Stofnun sölufyrirtækis í Danmörku

Set hefur stofnað nýtt sölufyrirtæki í Danmörku Set Pipes AS sem ætlað er að þjóna markaðstarfi félagsins á norðurlöndunum. Kim Stubbergaard Reese mun veita félaginu forstöðu en söluskrifstofan er í Frederikshavn á norður Jótlandi.

Í tilkynningu um stofnun Set Pipes AS á LinkedIn kemur fram að Set hafi mikla vörubreidd, langa reynslu og tæknilega getu til að takast á við verkefni á lagnasviði í verksmiðjum fyrirtækisins á Íslandi, á Selfossi en ekki síður á meginlandinu með vinnslu á einangruðum stálrörum hjá Set Pipes GmbH í Haltern am See í Þýskalandi.
Set bjóði lausnir í lagnaefni fyrir fjarvarma, vatns og fráveitur, ljósleiðara og kerfi fyrir iðnað og kæliveitur. Síðast og ekki síst mun Set geta boðið nýja gerð af einangruðum plaströrum frá nýrri framleiðslulínu í Þýskalandi sem unnið hefur verið að þróun á undanfarin ár og þykir taka flestu fram af sambærilegu efni á markaðnum hvað sveigjanleika, beygju og álagsþol varðar og hefur einstakt einangrunargildi gegn hitatapi í fjarvarmakerfum. Stjórnendur og starfsfólk Set binda miklar vonir við þessa nálgun við norðurlöndin og eru stolt af stofnun Set Pipes AS.