Fréttir

Hið árlega Set mót í fótbolta er ört vaxandi viðburður

Set mótið var haldið á Selfossi helgina 13-14. júní sl. en það hefur fest sig í sessi sem árlegur viðburður í bæjarfélaginu frá því það hófst 2014. Mótið sækja tveir árgangar 6. flokks drengja. Skráðir þátttakendur voru 760 frá 31 knattspyrnufélagi en alls léku 127 lið í 12 riðlum á 18 keppinsvöllum. Stöðugur vöxtur hefur verið í fjölda þáttakenda en aðstaðan á Selfossi og skipulag mótsins þykir til mikillar fyrirmyndar. Mjög margir aðilar leggja fram vinnu sína og sem dæmi um umfangið voru rúmlega fimmtíu dómarar við störf sem dæmdu tæplega 700 leiki. Í heildina komu allt að hundrað manns að framkvæmdinni.
Mikill fjöldi fólks sækir viðburðinn, leikmenn foreldrar og aðstandendur og það hefur auðvitað jákvæð áhrif á umsvif í bæjarfélaginu. Sem fyrr voru veitt þrenn verðlaun fyrir úrslit í hverjum riðli en nánari upplýsingar um úrslit er að finna á Facebook síðu mótsins. Þátttakendur fengu einnig gjafir sem í ár voru íþróttapoki og fótbolti. Set ehf. þakkar Knattspyrnudeildinni fyrir gott samstarf og við viljum einnig þakka þátttakendum, foreldrum, stuðningsfólki og öðrum gestum sem komu á mótið.