Nafn

Netfang

Erindi

Skilaboð

Fréttir

Hæfileikaríkur starfsmaður Set

Þórir Geir Guðmundsson, starfsmaður í verksmiðju Set á Selfossi, var þátttakandi í hæfileikaraunveruleikaþættinum The Voice Iceland í síðustu viku. Þórir Geir söng lagið Somebody to Love sem hljómsveitin Queen gerði vinsælt fyrir fjörutíu árum síðan, árið 1976. Hann þótti standa sig með stakri prýði og náði eyrum og athygli dómaranna. Á endanum valdi hann að halda áfram keppni sem meðlimur í liði Sölku Sólar, en allir fjórir dómararnir reyndu hvað þeir gátu til að fá Þórir Geir til liðs við sig.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með áframhaldandi þátttöku Þóris Geirs í þættinum er hægt að horfa á þáttinn í Sjónvarpi Símans. Hver veit nema að hann taki svo lagið fyrir starfsfólk Set í matsalnum á næstunni. Allavega er ljóst að starfsfólk Set mun fylgjast með og hvetja okkar mann áfram.

Hér að neðan má sjá myndband af Þóri Geir syngja lagið í þættinum í liðinni viku.

Set styður við handboltafólk á Selfossi

Í dag var undirritaður áframhaldandi styrktarsamningur á milli Set og Handknattleiksdeildar Umf. Selfoss, en Set hefur styrkt deildina í áratugi. Bæði meistaraflokkslið Selfoss í handbolta spila á meðal bestu liða landsins í Olís-deildinni og einnig er unnið virkilega gott starf í yngri flokkum deildarinnar. Kvennalið Selfoss er nú í 6. sæti deildarinnar og karlalið er í 2. sæti sem nýliðar í deildinni.

Þess má geta til gamans að einn af aðalleikmönnum karlaliðsins, Einar Sverrisson, er starfsmaður á söludeild Set. Hér til hliðar má sjá mynd af honum í leik með Selfossliðinu fyrir stuttu.

Magnús Matthíasson, formaður Handknattleiksdeildarinnar, sagði við undirritunina að styrktur sem þessi væri deildinni gríðarlega mikilvægur og undirstaða þess að deildin gæti haldið áfram það góða starfi sem hún hefur unnið undanfarin ár.

Magnús og Þorsteinn Rúnar Ásgeirsson, gjaldkeri, undirrituðu samninginn fyrir hönd Handknattleiksdeildarinnar, en Brynjar Bergsteinsson, framleiðslu- og vörustjóri Set, undirritaði samninginn fyrir hönd Set. Meðfylgjandi eru myndir frá undirrituninni í fundarherbergi Set á Selfossi.

Vel heppnuð ferð á Dansk Fjernvarme

Fulltrúar Set voru meðal þátttakenda á vöru- og þjónustusýningunni Dansk Fjernvarme sem var haldin í Kaupmannahöfn í Danmörku í liðinni viku í tengslum við ársfund danska fjarvarmasambandsins, Landsmøde, dagana 25.-27. október. Þau Bergsteinn Einarsson, forstjóri Set, Louise Harrison, sölustjóri á útflutningssviði, og Erik Schou Lund, viðskiptastjóri Set á Norðurlöndunum, stóðu vaktina á sýningunni.

Að sögn fulltrúa Set gengu sölu- og kynningarstörf á sýningunni mjög vel þar sem stofnað var til nýrra viðskiptatengsla og þau eldri styrkt. Á næstu vikum verður það starf yfirmanna og sölufulltrúa Set að vinna úr því sem kom út úr þessari sýningu.

Meðfylgjandi eru myndir frá sýningunni.

Fulltrúar Set á fagsýningu í Svíþjóð

Fulltrúar Set voru þátttakendur sænsku fjarvarma sýningunni, Fjärrvärmemässan 2016, sem var haldin í Jönköping í Svíþjóðí vikunni og kynntu þar vörur og þjónustu fyrirtækisins. Þátttaka Set á sýningunni er enn einn liðurinn í því að styrkja markaðssókn Set Pipes í Skandinavíu. Góð aðsókn var á sýningarbás Set alla þrjá dagana og mikill áhugi var á því sem fyrirtækið hefur að bjóða.

Þrjár ráðstefnur og sýningar voru haldnar þá þrjá daga sem viðburðurinn stóð yfir og þetta árið var þemað sjálfbært samfélag. Set sýndi og kynnti gestum sýningarinnar einangrað lagnaefni fyrir fjarvarmaveitur, en sýningarnar náðu yfir fjarvarma, vatns- og afrennslismál, vatnshreinsun, úrgangsmál og endurvinnslu.

Þeir sem sækja sýninguna eru aðallega forsvarsmenn og starfsmenn sveitarfélaga og orkufyrirtækja, hönnuðir, verkfræðingar og hagsmunaaðilar í þessum mikilvægu málaflokkum.

Set á fjarvarmasýningu í Svíþjóð

Set tekur þátt í norrænu fjarvarmasýningunni Fjärrvärme Mässan 2016 í Jönköping í Svíþjóð dagana 27. til 29. september nk. Fyrirtækið sýnir þar undir merki Set Pipes GmbH í Þýskalandi og kynnir einangrað lagnaefni fyrir fjarvarmaveitur. Þetta er í annað skipti sem Set sýnir á ráðstefnu sænska fjarvarmasambandsins en fyrsta erlenda sýningin sem Set tók þátt í var sama sýning í Malmö árið 1995.

Þrjár sænskar ráðstefnur og sýningar hafa nú verið sameinaðar í eina undir kjörorði sjálfbærs samfélags. Í fyrsta lagi sænska fjarvarmaráðstefnan, önnur fjallar um vatns- og afrennslismál og loks sú þriðja um úrgang og endurvinnslu. Fjallað verður um heildræna nálgun við þessi viðfangsefni í sjálfbæru samfélagi.

Dagskráin varðar því tækni á víðu sviði orku- og umhverfismála á nýrri öld en Set er með breiðasta vöruúrval allra sýnenda á Norðurlöndunum og spannar framleiðsla fyrirtækisins á Íslandi öll þessi svið.

Gert er ráð fyrir yfir 10.000 gestum á viðburðinn aðallega frá Svíþjóð en einnig frá nágrannalöndunum. Sænska kynningarfyrirtækið Elmia sér um skipulagninguna.

Myndin hér að ofan er frá sýningarbás Set á En+EFF sýningunni sem var haldin á vegum þýska Fjarvermasambandsins AGFW í Frankfurt í Þýskaland, dagana 19. – 21. apríl sl.

Víðari foreinangraðar stálpípur auka framleiðslugetu

Set afhenti nýlega efni í verkefni Orkuveitu Reykjavíkur vegna breytingar á legu Reykjaæðar. Um er að ræða 700 mm stálpípu í 900 mm hlífðarkápu sem notuð er til að flytja hluta Reykjaæðinnar, einnar helstu meginæðar hitaveitukerfis Reykjavíkur, til að rýma fyrir nýrri byggð. Tekinn er hlykkur á lögnina til suðurs meðfram væntanlegri byggð. Verklegur þáttur er farinn í útboð og gert er ráð fyrir verklokum sumarið 2017. Lagðar verða veitulagnir í nýtt hverfi sem rísa mun þar sem Reykjaæðin þveraði lóðina, verklok verða fyrir lok árs 2018.

Með nýlegum samningi við Orkuveitu Reykjavíkur hefur Set aukið markaðshlutdeild sína á innanlandsmarkaði í víðari pípustærðum í krafti stærðargetu verksmiðju Set Pipes GmbH í Þýskalandi. Þess utan styrkist samkeppnisstaða fyrirtækisins í sömu pípustærðum í útboðum á innanlandsmarkaði til muna, en áður bauð fyrirtækið einungis í verkefni þar sem hlífðarkápan var 500 mm og grennri.

Set pipes GmbH hefur þannig á liðnum árum framleitt efni með hlífðarkápu upp í 900 mm og getur farið enn hærra ef slík verkefni koma inn á borð félagsins. Um leið og samningsbundin verkefni fyrir Orkuveituna hafa komið til hefur framleiðslugeta tengistykkja á verkstæði fyrirtækisins á Selfossi verið aukin samhliða upp í stálpípur með 1200 mm hlífðarröri.

Smíði á beygjum og ýmsum tengistykkjum í sömu pípustærðum eru ný verkefni sem hafa komið inn í töluverðum mæli samhliða sölu á rörum að utan. Þannig hefur salan og framleiðslu tengd verkefni vaxið báðum megin Atlantshafsins hjá félaginu, einkum eftir samninginn við Orkuveituna sem er lang stærsti notandi víðari stofnlagna hér á landi.

Tilkoma Set Pipes GmbH hefur þannig leitt til verulegs ábata fyrir heildarumsvif Set á innanlandsmarkaði um leið og fyrirtækið er betur í stakk búið að svara alþjóðlegri eftirspurn á öllu stærðarsviði einangraðra fjarvarma lagna. Gott áratuga langt samstarf Set við innlendan veitumarkað skiptir miklu máli og samningurinn við Orkuveituna er okkar íslenska fyrirtæki mikilvægt veganesti í starfseminni á næstu árum.

Velheppnað Set-mót á Selfossi

Set-mótið, knattspyrnumót fyrir yngri árgang 6. flokks, var haldið á íþróttavellinum á Selfossi um helgina. Tæplega 400 krakkar kepptu í frábæru veðri á tólf völlum í sex deildum og dreifðust verðlaunin vel á þau félög sem tóku þátt.

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hverri deild, bestu leikmennina í hverri deild, besta markvörðinn, besta dómarann, besta þjálfarann, bestu stuðningsmennina, háttvísisverðlaun og fleira. Þá fengu tveir leikmenn áritaðan búning að gjöf, annars vegar frá Jóni Daða Böðvarssyni og hins vegar frá Viðari Erni Kjartanssyni, í svokölluðu Set-lottói þar sem allir þátttakendur mótsins voru í pottinum. Allir þátttakendur fengu svo bók um EM í knattspyrnu og sundpoka að gjöf frá Set og Knattspyrnudeild Selfoss.

Set bauð upp á nýjungar á mótssvæðinu um helgina. Fyrirtækið settið upp fótboltagolfvöll og skotþraut fyrir keppendur og gesti þeirra til að stytta sér stundir á milli leikja. Hvort tveggja var hannað og framkvæmt hjá Set og voru eingöngu notaðar vörur fyrirtækisins til þess.

Völlurinn og leiktækið var virkilega vel nýtt af gestum mótsins og lífgaði upp á vallarsvæðið. Leiksvæðið verður áfram á vellinum og mögulegt fyrir unga sem aldna að spreyta sig á því í sumar, ekki síst þegar mismunandi viðburðir eru á Selfossvelli.

Set þakkar keppendum, gestum og aðstandendum mótsins kærlega fyrir velheppnað mót og fyrir samstarfið um helgina.

Meðfylgjandi myndir voru teknar um helgina.

Set mótið í knattspyrnu á Selfossi um helgina

Set mótið í 6. flokki í knattspyrnu verður haldið á íþróttavellinum á Selfossi um helgina þar sem um 400 krakkar munu taka þátt.

Set hefur sett upp níu holu fótboltagolfvöll og leikjaþraut á vallarsvæðinu fyrir krakkana til að skemmta sér í á milli leikja. Hvort tveggja var hannað og búið til í fyrirtækinu og úr vörum frá fyrirtækinu.

Auk þess verður Set lottó þar sem allir keppendur eiga möguleika á því að vinna áritaðar treyjur frá tveimur af bestu knattspyrnumönnum Selfoss, Jóni Daða Böðvarssyni og Viðari Erni Kjartanssyni.

Set óskar þátttkendum góðs gengis um helgina.

Myndin hér að ofan er frá Set leiksvæðinu á Selfossvelli.

Hópar frá Orkuveitu Reykjavíkur heimsóttu Set á Selfossi

Hópar starfsmanna frá Orkuveitu Reykjavíkur heimsóttu höfðustöðvar Set á Selfossi fyrir stuttu. Örn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu- og tæknisviðs Set, tók á móti fyrri hópnum og sýndi honum mismunandi framleiðsludeildir Set. Honum til aðstoðar voru Grétar Halldórsson, sölu- og tækniráðgjafi, Elías Örn Einarsson, þjónustu- og öryggisstjóri, og Brynjar Bergsteinsson, framleiðslustjóri.

Stuttu síðar kom annar hópur, í þetta sinn frá tækniþróunardeild Orkuveitu Reykjavíkur, í heimsókn til að kynna sér starfsemi Set á Selfossi og kanna möguleika á frekara samstarfi á milli fyrirtækjanna í sambandi við gufulagnir, gaslagnir, einangraðar aðveitulagnir og skyljuvatn. Eftir kynningu á fyrirtækinu fór hópurinn í flugsafnið á flugvellinum á Selfossi þar sem Einar Elíasson, forstöðumaður safnsins og einn af stofnendum Set, fræddi viðstadda um sögu flugvallarins í Kaldaðarnesi. Myndin hér til hliðar var tekin af hópnum ásamt Einari á safninu eftir þá fræðslu.

Myndirnar í myndasafninu hér að neðan eru frá heimsókn
fyrri hópsins.

Forsetaframbjóðandi heimsótti Set á Selfossi

Guðni Th. Jóhannesson, frambjóðandi til embættis forseta Íslands, heimsótti höfuðstöðvar Set á Selfossi í gær ásamt eiginkonu sinni, El­izu Reid. Þau Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri Set, Örn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu- og tæknisviðs, og Louise Harrison, inn- og útflutningsfulltrúi, tóku á móti þeim og sýndu þeim starfs- og framkvæmdasvæði fyrirtækisins.

Á leið sinni um svæðið gaf Guðni sig á tal við starfsmenn og ræddi meðal annars við nokkra á rússnesku. Að lokum rituðu hann og Eliza nöfn sín ásamt stuttri kveðju í gestabók Set, eins og sjá má á myndinni hér til hægri.

Eftir sýningarferðina snæddi hópurinn hádegisverð ásamt fylgdarliði þeirra hjóna og starfsfólki Set. Þar fóru þau hjón yfir málefni líðandi stundar með starfsfólki yfir þorski, kartöflum og síðar kaffibolla.

Myndirnar hér að neðan voru teknar í heimsókninni í gær.

Fréttir og tilkynningar
Sölupantanir

Sölupantanir má senda á veffangið sala@set.is

Opnunartímar
Mán - fim 8:00-17:00
Fös 8:00-15:00
Set Selfossi
  • Eyravegur 41, 800 Selfoss
  • 480 2700
  • 482 2099
  • sala@set.is
Set Reykjavík
  • Klettagarðar 21, 104 Reykjavík
  • 480 2700
  • 480 2099
  • sala@set.is
EnglishGerman