Set mótið orðið fastur liður á Selfossi
Dagana 7. og 8. júní fór fram Set mótið í knattspyrnu á Selfossi við frábærar aðstæður. Um 800 keppendur úr 6. flokki yngri tóku þátt í mótinu, sem tókst einstaklega vel og var skipulagningin til fyrirmyndar, en knattspyrnudeild UMF Selfoss sá um hana. Þetta var í 12. sinn sem mótið var haldið og hefur það orðið fastur liður í sumarstarfinu á Selfossi. Mikið líf og fjör fylgdi gestunum, og talið er að um 2000 gestir hafi heimsótt Selfoss á meðan á mótinu stóð.
Á laugardaginn skrifuðu Set og KND Selfoss undir áframhaldandi samstarfssamning, þar sem Set er einn af aðalsamstarfsaðilum KND Selfoss. Set er mjög stolt af því að styðja við íþróttalegt uppeldi og jákvæð áhrif á nærsamfélagið með eflingu íþrótta og forvarna. Samstarfið hefur reynst afar árangursríkt og hefur stuðningur Set gert knattspyrnudeildinni kleift að bæta aðstöðu og þjálfun fyrir unga iðkendur.

Mynd: Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir, framkvæmdarstjóri Set, Halldór Bjarki Guðmundsson, framkvæmdastjóri KND Selfoss og Matthías Stephenssen, fjármálastjóri Set
Mótið sjálft var fjölbreytt og skemmtilegt, með mörgum spennandi leikjum og góðri stemningu. Keppendur sýndu mikinn baráttuanda og leikgleði, og var gaman að sjá hversu vel þeir stóðu sig. Áhorfendur nutu góðs af veðurblíðunni og var stemningin á vellinum frábær. Mótið endaði á verðlaunaafhendingu þar sem lið FH var sigurvegari. Allir þátttakendur fengu bolta, tösku og annan glaðning fyrir þátttökuna og var gleðin við völd.
Vonir standa til að Set mótið haldi áfram að vaxa og dafna á komandi árum, og að það verði áfram mikilvægur hluti af sumarstarfi Selfoss. Með áframhaldandi stuðningi Set og annarra samstarfsaðila er ljóst að framtíð barnastarfs á Selfossi er björt.
„Mótshaldarar eru hæstánægðir með hvernig til tókst og við getum öll verið stolt af stuðningi Set við mótið. Það spillti ekki fyrir að veðrið var gott og sólin með okkur í lið.“
Gunnar Rafn Borgþórsson, yfirþjálfari knd UMF Selfoss


















