Ísböð njóta síaukinna vinsælda
Ísböðin sem við í Set höfum verið að smíða fyrir sundlaugar hafa notið síaukinna vinsælda frá því fyrsta eintakið var útbúið fyrir nokkrum árum. Líkamsræktarstöðvar, íþróttamenn og einstaklingar hafa í vaxandi mæli sent fyrirtækinu fyrirspurnir um þessa vöru sem er ekki beint hluti af hefðbundnum vörum fyrirtækisins á lagnasviði. Það er gaman að sjá þá þá þróun sem orðið hefur eftir að varan kom fram og þá óvæntu eftirspurn sem fylgdi í kjölfarið. Meðal þeirra sem keypt hafa ísbað af Set er íþróttafélagið Mjölnir og Gunnar Nelson en Mjölnir er íþróttafélag sem hefur þann tilgang að efla ástundun og keppni í lifandi bardagaíþróttum en á því sviði hefur Gunnar náð ótrúlegum árangri á heimsvísu. Á þessari mynd er hann ásamt ísbaðinu sem Mjölnir fékk frá Set. Yfirsmiður vörunnar hjá Set er Guðjón Ingi Viðarsson plastsmiður sem hefur áralanga reynslu í smíði á ýmsum tengibrunnum, tönkum og lagnalausnum unnið úr Weholite rörunum sem framleidd eru í Set.