Óflokkað

Sara og Páll í framkvæmdarstjórn

Sara Valný Sigurjónsdóttir og Páll Ragnar Pálsson hafa verið ráðin í framkvæmdastjórn Set ehf. og hafa þau þegar hafið störf. Sara gegnir stöðu sölu- og tæknistjóra og Páll hefur verið ráðinn verksmiðjustjóri. 

Sara Valný Sigurjónsdóttir kemur frá JBT Marel og býr yfir víðtækri reynslu af stjórnunarstörfum tengdum framleiðslu, sölu og markaðsmálum í alþjóðlegu umhverfi. Hjá JBT Marel leiddi hún hóp vörusérfræðinga og bar ábyrgð á stefnumörkun, sölu- og markaðsmálum. Hún starfaði áður sem alþjóðlegur vörustjóri fyrir vogir og flokkara, framleiðslustjóri rafeindavara auk þess að leiða teymi innan framleiðslustýringar. Sara Valný er með M.Sc. í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og hefur lokið námi í stafrænni umbreytingu.  

Páll Ragnar Pálsson kemur til Set frá Veitum, þar sem hann starfaði síðast sem leiðtogi framkvæmdaflokka með ábyrgð á verkefnum tengdum vatnsveitum, fráveitu og rafmagnslögnum. Hann hefur gegnt margvíslegum stjórnunarstörfum innan Veitna, þar á meðal sem verkstjóri fráveitu og sem verkstjóri dælu- og hreinsistöðva fráveitu. Áður starfaði hann til sjós sem fyrsti vélstjóri hjá Fisk Seafood. Páll er menntaður vélfræðingur frá Vélskóla Íslands.  

„Við erum einstaklega ánægð með að fá Söru og Pál til liðs við framkvæmdastjórn Set. Þau búa yfir mikilli reynslu og þekkingu sem mun styrkja okkur hjá Set enn frekar í að nýta sérþekkingu og íslenskt hugvit til að mæta fjölbreyttum þörfum samfélagsins í innviðauppbyggingu. Þau munu gegna lykilhlutverki hjá Set við að tryggja öfluga þjónustu og nýsköpun í innviðum fyrir komandi kynslóðir,“  segir Guðbjörg Sæunn Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Set ehf.